Wednesday, August 16, 2006

 

Sumarfrí 2006

Tveggja vikna hringferð um landið lokið.

Byrjuðum á Sauðárkróki þar sem við dvöldum í fjóra daga ein á Aðalgötunni en tengdaforeldrarnir voru á sama tíma í heimsókn í Danmörku. Lárus fór einn daginn í rafting með Svövu Þórðar niður Eystari Jökulsá. Mér datt ekki til hugar að halda þeim selskap í þeirri svaðilför enda lítið fyrir að storka örlögunum með þessum hætti. Þau komu lifandi úr ferðinni, skælbrosandi eyrna á milli yfir öllum hremmingunum.

Í Skagafirði heimsóttum við m.a. Hóla en þar var þá samkoma í kirkjunni og margt um manninn á staðnum. Við létum það vera að taka þátt í hátíðahöldunum en kíktum á fiskasýninguna sem vakti mikla lukku. Sérstaklega urriðarnir og hinn undarlegi lungnafiskur sem jók mjög tiltrú sonarins á að skrýmsli og forynjur væru til. Rétt litum við hjá Sólrúnu frænku en hún hefur búið að Hólum í nokkur ár. Ræktar þar íslenskar hænur sem spígsporuðu í kringum húsið.

Gunnar Rögnvalds á Löngumýri var einnig heimsóttur og fengum við skoðunarferð um húsið hjá staðarhaldaranum. Ég hef ekki komið þarna áður en Lárus rifjaði upp gamlar minningar frá því að hann bjó í Varmahlíð. Það er nauðsynlegt að viðhalda góðum kunningsskap og líta við þegar maður á leið um fjarlægari landshluta en Gunnar var á sama tíma og við í Danmörku auk þess að vera sveitungi Lárusar.
Á Sauðárkrók vakti það athygli hve mjög Aðalgatan hefur dalað sem verslunargata. Fyrir nokkrum árum voru verslanir í hverju húsi en nú eru þær teljandi á fingum annarrar handar. Þetta er sorgleg þróun sem sést því miður of víða á landsbyggðinni.

Lítið varð úr stoppi á Akureyri í þetta skiptið þar sem sá dagur fór að mestu í viðtöl vegna úrskurðarins í Eyktarmálinu. Ætla ekki að skrifa um þann furðulega gjörning ráðuneytisins, en hér má lesa grein sem ég setti í Morgunblaðið um málið.

Gistum eina nótt á Grenivík sem þrátt fyrir að láta lítið yfir sér er algjör perla við Eyjafjörðinn. Útsýnið úr Ægisíðu, sumardvalarstað Grundarsystra, er stórkostlegt og í raun margmilljón króna virði. Hannes Skírnisson frá Skarði í Dalsmynni og kona hans Kata komu í kvöldmat og var virkilega gaman að hitta hann aftur eftir ríflega 20 ár en við vorum saman í 1. bekk í MA auk þess að vera nágrannar á heimavistinni þennan fyrsta vetur. Við höfum auðvitað ekkert breyst :-)

Komum við á Húsavík á leið okkar austur á Eskifjörð þar sem Sigurlaug og Gaukur tóku höfðinglega á móti gestum að sunnan. Á Mývatni var besta veður ferðarinnar enda ætluðum við aldrei að geta lagt af stað þaðan. En eftir göngu á Hverfjall í hita brækjunni var lagt af stað og komið til Sigurbjargar um kvöldið. Austfjarðaþokan var ansi drjúg þessa daga sem við dvöldum á Fjörðunum. En daginn sem farið var yfir í Mjóafjörð létti til og gerði þetta fína veður. Það var ógleymanleg ferð. Mættum í kaffihlaðborð í Selbrekku þar sem var troðfullt útúr dyrum og gaman var að sjá þar ráðherrann okkar fyrrverandi Vilhjálm Hjálmarsson, svona líka hressilegan. Keyrðum síðan út að Dalatanga en það er óskiljanlegt að þar skuli ennþá vera búið. Brekkuþorpið finnst flestum nógu afskekkt en maður er varla hálfnaður á Dalatanga þegar þangað er komið. En leiðin er afar falleg þrátt fyrir að vera glæfralega á köflum. Ekki fyrir lofthrædda semsagt og hrósuðum við happi að Valdi bróðir var ekki með í för. Það var furðumikil umferð á þessari leið enda veðrið gott og háannatími í ferðaþjónustu. Um kvöldið var komið blankalogn í Mjóafirði og kyrrðin og fegurðin varð skyndilega svo yfirþyrmandi að enginn vildi yfirgefa fjörðinn. Vorum helst á því að fá okkur sumarhús þar í nokkrar vikur næsta sumar. Spurning reyndar hvort friður fjarðarins væri ekki endanlega úti ef Þelamerkur familían gerði innrás þar. Allavega ef Haukurinn er með :-). Stórfjölskyldan mínus Valdimar og co var semsagt fyrir austan um Verslunarmannahelgina og náðum við meira að segja því að kíkja á lokakvöld Neistaflugsins þar sem við komumst að því að Austfirðingar geta líka haft góðar flugeldasýningar.

Blöndalsbúð í Eyjólfsstaðaskógi var síðan afdrep familíunnar í viku. Þar gátum við notið þess að vera saman öll en Laufey Sif átti nokkra daga frí frá tjaldsvæðisvörslunni og gat því sýnt okkur það markverðasta í nágrenninu.
Eftir að Sigurbjörg og Laufey Sif yfirgáfu Suðurlandið og bættust í hóp austfirska ættbálksins höfum við farið miklu oftar austur og nú finnst okkur við vera þar nokkuð heimavön. Bjarni Rúnar og Albert skelltu sér meira að segja í Eyvindarána. Albert stökk af minnsta klettinum útí ískalda ána en Bjarni Rúnar gerði sér lítið fyrir og stökk af þeim öllum og endaði á því að príla útá brúna og fleygja sér þaðan ofaní. Þetta er alveg frábær staður og ótrúlega fallegt þarna í kringum ána.

Keyrðum síðan heim á föstudegi því mikið var um að vera um helgina eins og ávallt.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?